Við áttum okkur á því

5. febrúar 2016 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Ef þið eruð að velta fyrir ykkur hvers konar fólk fyllir raðir ofstækismanna sem nú vaða uppi víða um lönd og mótmæla móttöku flóttamanna og öðrum skyldum mannúðarmálefnum þá ættuð þið að sjá sýninguna Old Bessastaðir í Tjarnarbíó. Þetta er nýtt leikverk eftir Sölku Guðmundsdóttur sem æpir beint inn í samtímaumræðuna og það er Sokkabandið sem sýnir undir stjórn Mörtu Nordal. Lesa meira

Stúlka ein

30. janúar 2016 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Það mátti ímynda sér í upphafi sýningarinnar Samfarir hamfarir í Tjarnarbíó í gærkvöldi að ljósameistari og leikmyndahönnuður væru stoltir af sínu verki, svo lengi fengu marglit ljósin að leika um flókinn vefinn sem myndar sviðið áður en persónur komu á vettvang. Fyrst dettur manni í hug kóngulóarvefur, svo hugsar maður um net sem lokast um veiðidýr – hvort tveggja mætti til sanns vegar færa – en líklega á leikmyndin einkum að segja okkur að við séum stödd inni í heilabúi aðalpersónunnar sem hugsar til baka um líf sitt. Lesa meira

Ég man … ég man … ég man

25. janúar 2016 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Kannski var það kvefið – en ég held að ég hafi aldrei skælt eins mikið á leiksýningu og í gærkvöldi. Það var Flóð á litla svið Borgarleikhússins sem hafði þessi áhrif, heimildaverkið um snjóflóðið á Flateyri fyrir rétt rúmum tuttugu árum, eftir Björn Thors og Hrafnhildi Hagalín sem Björn leikstýrir. Lesa meira

Fílías Fogg enn á ferð

24. janúar 2016 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Hetjur Spaugstofunnar gera það ekki endasleppt við okkur þessi misserin. Við höfum notið upprifjana á glensi þeirra í sjónvarpinu undanfarin laugardagskvöld, þeir eru enn að sýna Yfir til þín á stóra sviði Þjóðleikhússins og í gærdag var frumsýnd á stóra sviði Þjóðleikhússins leikgerð Karls Ágústs Úlfssonar og Sigurðar Sigurjónssonar á sögunni Umhverfis jörðina á 80 dögum eftir Jules Verne. Á sviðinu bættist sá þriðji í hópinn því Örn Árnason leikur Passepartout af mikilli ánægju. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir. Lesa meira

Eru það kannski töfrar?

17. janúar 2016 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Leikmyndin í sýningunni Hvítt sem frumsýnd var í dag í Hafnarborg á vegum Gaflaraleikhússins er undurfalleg: Hvítt tjald og lítil hvít fuglahús á misháum stólpum á hvítu gólfi með hvítt baktjald. Hvíti liturinn er ekki bara snjóhvítur heldur líka kremhvítur, rjómahvítur og hrímhvítur í bland svo úr verður hvít litadýrð. Það er Catherine Wheels leikhópurinn sem á heiðurinn af sviðinu og annarri umgerð sýningarinnar, höfundar eru Andy Manley og Ian Cameron en leikstjórinn er okkar eigin Gunnar Helgason. Lesa meira

Georg og Marta – sorgarsaga

16. janúar 2016 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Það var beinlínis líkamlega erfitt að fylgjast með átökum þeirra Hilmis Snæs Guðnasonar og Margrétar Vilhjálmsdóttur á Nýja sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi í fulla þrjá klukkutíma (með einu hléi), svo ekta hatrömm voru þau, þó nokkurn veginn alveg án líkamlegs ofbeldis. Í víðkunnu leikriti Edwards Albee Hver er hræddur við Virginíu Woolf? beita menn ofbeldi með orðum. Þess vegna er krafa númer eitt að textinn renni vel, fari vel í munni þessa fólks sem hellir úr skálum reiði, vonsvika, örvæntingar og heiftar yfir sína nánustu og aðra á sviðinu. Þýðing Sölku Guðmundsdóttur gegndi hlutverki sínu með mikilli prýði – ef hægt er að nota svo prútt orð um svona mikinn dónaskap. Og óágeng hljóðmynd Möggu Stínu ýtti lymskulega undir óhugnaðinn. Lesa meira

Njála OK

31. desember 2015 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Eiginlega er sýning Leikfélags Reykjavíkur á Njálu, sem frumsýnd var á stóra sviði Borgarleikhússins í gær, eins og Njála sjálf: löng og dramatísk, viðburðarík og djúp, ofbeldisfull, blóðug, hæðin og fyndin, spennandi og þó langdregin og leiðinleg á köflum. Jafnvel tímaskekkjurnar, þegar persónur bregða fyrir sig nýlegum enskuslettum eða bresta út í amerískum dægurlagasöng eða rappi, þær eiga sér líklega sínar hliðstæður í Njálu, þótt ekki beri mikið á þeim núorðið þegar svo langt er liðið frá tímum hennar. Ég fullyrði að það er afrek að búa til sýningu af þessari stærð og vigt og þar eiga þátt allir í leikhópnum og Íslenska dansflokknum, handritshöfundar, sviðslistamenn með Ilmi Stefánsdóttur leikmyndahönnuð í broddi fylkingar, og þó líklega fyrst og fremst leikstjórinn, Þorleifur Örn Arnarsson. Lesa meira

Ekki er allt gull sem glóir

30. desember 2015 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Ég sá ekki nægilega vel yfir salinn í Kassanum í gærkvöldi til að vita hvort allir réttu upp hönd þegar Oddur Júlíusson hlémælir spurði hverjir hefðu einhvern tíma haft peningaáhyggjur. Sennilega allir sem tóku þátt í leik hans af fullri hreinskilni. Við burðumst öll með peningaáhyggjur, sumir stundum, aðrir oft, nokkrir alltaf. Og hvernig stendur á því? Eigum við ekki að njóta okkar skamma tíma hér á jörð? Og það gerum við ekki með því að eignast meira og meira vegna þess að því meira sem við eignumst því minna virði verður það. Virði hlutanna minnkar í réttu hlutfalli við magn þeirra. Það verður skýrast í eldræðu Mána (Stefán Hallur Stefánsson) um gullið í leikriti Jonasar Hassen Khemiri ≈ [Um það bil] sem frumsýnt var í Kassa Þjóðleikhússins í gær undir stjórn Unu Þorleifsdóttur. Lesa meira

Ástin hefur … hendur sundurleitar

27. desember 2015 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Það má teljast djarft að setja upp Sporvagninn Girnd um miðjan ískaldan vetur í Þjóðleikhúsi Íslendinga, þetta heita og sveitta verk sem snýst um ástríður og gerist í þrúgandi hita Suðurríkja Bandaríkjanna. Stefán Baldursson leikstjóri er þó hvergi banginn og hefur með sér þétta sveit kvenna, aðstoðarmanninn Eddu Björgu Eyjólfsdóttur, leikmyndahönnuðinn Þórunni Sigríði Þorgrímsdóttur og búningameistarann Filippíu I. Elísdóttur. Flókna lýsinguna sér Magús Arnar Sigurðason um og ágeng og áhrifamikil hljóðmyndin er eftir Elvar Geir Sævarsson. Nýja þýðingu gerði Karl Ágúst Úlfsson.

Lesa meira

La donna e mobile

20. desember 2015 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Í Sýningu um ást og karókí sem þrír nemendur í sviðslistadeild Listaháskóla Íslands frumsýndu í húsnæði skólans í gær undirbýr Adolf Smári Unnarsson, Dolli, trúlofun sína og Dísu, skólasystur sinnar. Adolf Smára hef ég séð nokkrum sinnum áður í Stúdentaleikhúsinu og er alveg himinlifandi yfir því að hann skuli ætla að leggja þetta starf fyrir sig. Lesa meira

Næsta síða »