Ekki mættu allir sem boðið var

24. nóvember 2014 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Leikhópur Mörtu Nordal og Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur, Aldrei óstelandi, frumsýndi í gærkvöldi leikgerð hennar og leikhópsins af verðlaunabók Einars Kárasonar, Ofsa, í Kassa Þjóðleikhússins. Verkið segir frá aðdraganda eins hörmulegasta glæps Sturlungaaldar, Flugumýrarbrennu, og endar á brennunni sjálfri. Þetta er auðvitað kvikmyndaefni og ekki augljóst hvernig má laga það að litlu sviði og fáum leikendum en hópurinn sýnir sem fyrr óvenjulega hugkvæmni í útfærslu hugmynda svo úr verður einstaklega frumleg, skemmtileg og áhrifamikil sýning. Lesa meira

Í pottinn búið

22. nóvember 2014 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Skýjasmiðjan sýnir nú í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu látbragðs- og brúðuleikinn Fiskabúrið sem er ætlaður börnum frá 18 mánaða til sex ára. Ég fór með einn þriggja ára sem fannst alveg æðislega gaman og annan sex ára, vanan leikhúsmann, sem var stilltari í hrifningu sinni en ánægður þó. Svo langt sem það nær bendir það til þess að leikhúsið hafi skilgreint rétt hvaða aldri verkið hæfir. Lesa meira

Ekki stundarfriður fremur en áður

18. nóvember 2014 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Stúdentaleikhúsið sýnir nú í Perlunni sína útgáfu af Stundarfriði Guðmundar Steinssonar, verki sem Þjóðleikhúsið frumsýndi í mars 1979 og sló þá öll aðsóknarmet í því húsi auk þess sem það var sýnt víða um lönd og er jafnvel enn. Það fer sérstaklega vel á því að láta ungar manneskjur taka þetta verk fyrir því ef einhverjir geta lært af því þá eru það þær. Leikstjóri er Karl Ágúst Þorbergsson sem hefur unnið feikilega vel með sínum hæfileikaríka hópi. Tónlistin skiptir líka máli, hana gerði Friðrik Guðmundsson. Lesa meira

Þegar Dóri litli var dæmdur vanhæfur Íslendingur

16. nóvember 2014 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Aldursbilið milli barns og unglings er ekki langt og ekki vel afmarkað en spennandi vegna þess hvað við erum opin, óræð og óráðin einmitt þá. Það er til dæmis þá sem við fáum gjarnan þá þráhyggju að við séum ekki í alvörunni þau sem okkur er sagt að við séum. Við getum ómögulega verið börn þessara foreldra sem segjast eiga okkur, þau eru svo allt öðruvísi en við, við erum örugglega ættleidd og eigum allt annan (og kannski mun fínni) uppruna en virðist vera. Lesa meira

Id, ego, superego

8. nóvember 2014 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Gaflaraleikhúsið í Hafnarfirði er að gera skemmtilega tilraun með sérstakri Ungmennadeild við húsið. Hygg ég að einhverju hafi ráðið um þá ákvörðun hvað Unglingurinn þeirra Arnórs Björnssonar og Óla Gunnars Gunnarssonar gekk vel í fyrra. Höfundarnir voru þá 14 og 15 ára. Í fyrstu sýningu hinnar nýju deildar, Heili, hjarta, typpi, eru það litlu eldri ungmenni sem semja og leika undir stjórn sama leikstjóra, Bjarkar Jakobsdóttur, sem einnig nú á einn strákinn sjálf. Þetta er fallegt og fjölskylduvænt. Lesa meira

Feður og sonur

1. nóvember 2014 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Það var mikið hlegið í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi á frumsýningu farsans Beint í æð. Þar var farið yfir versta daginn í lífi Jóns Borgars (Hilmir Snær Guðnason), taugasérfræðings og yfirlæknis á Landakoti, en Gísli Rúnar Jónsson hefur þýtt og staðfært verk Rays Cooney, It runs in the family. Leikstjóri er Halldóra Geirharðsdóttir sem hefði líka notið sín á sviðinu. Sviðið var skrifstofa læknisins, raunsæileg við fyrstu sýn en reyndist búa yfir ótrúlega fjölbreyttum möguleikum, og búningar  tilgerðarlausir, hvort tveggja verk Helgu I. Stefánsdóttur. Lesa meira

Megafjör í Mosfellsbæ

20. október 2014 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Leikfélag Mosfellsbæjar er að sýna söngleikinn um Ronju ræningjadóttur í Bæjarleikhúsi sínu undir stjórn Agnesar Wild og tónlistarstjórn Sigrúnar Harðardóttur. Sýningin er afar fjölmenn, upp undir þrjátíu manns taka þátt í henni, og þó eru búningarnir enn fleiri því sömu leikarar leika skógarnornir og grádverga og annar hópur leikur rassálfa og Borkaræningja. Ekki furða þótt fjórtán manns séu skrifaðir fyrir búningum og sviðsmynd ásamt hönnuðinum Evu Björgu Harðardóttur. En gaman hefur verið að búa til þessar gersemar. Lesa meira

Hvað er auður og afl …?

19. október 2014 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Maður mátti hafa sig allan við að fá ekki alvarlegt kast af þjóðernishroka undir frumsýningunni á Don Carlo í Eldborgarsal Hörpu í gærkvöldi. Á snilldarlega hönnuðu sviði Þórunnar Sigríðar Þorgrímsdóttur, frumlega lýstu af Páli Ragnarssyni, steig fram hver glæsilegi söngvarinn af öðrum og lék og söng hlutverk sitt í einni mestu óperu Verdis undir styrkri stjórn Þórhildar Þorleifsdóttur. Með þeim söng Kór Íslensku óperunnar og Hljómsveit Íslensku óperunnar lék með Guðmund Óla Gunnarsson hljómsveitarstjóra og Unu Sveinbjarnardóttur konsertmeistara við stjórnvölinn. – Og hvergi veikur hlekkur. Einhvern tíma hefði þetta þótt saga til næsta bæjar á Íslandi. Lesa meira

Lífið er drullumall

18. október 2014 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Það fer margt um huga fullorðinnar manneskju undir sýningu Tíu fingra á Lífinu sem var frumsýnd í dag í Tjarnarbíó undir stjórn Charlottu Bøving. Sköpunarsaga biblíunnar er nærri og þróunarkenning Darwins sækir svolítið á mann þegar dýrategundirnar sækja fram hver af annarri en mest hreiðraði þó um sig í huga mínum gamla snilldarþýðingin hans Magnúsar Ásgeirssonar á Síðasta blóminu eftir James Thurber. Lesa meira

Leiðin til Rómar

18. október 2014 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Ekki get ég neitað því að ég kveið ofurlítið fyrir að sjá á sviði leikgerðina af Karítas, tveggja binda skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur. Verkið er mikil epík, það segir svo langa sögu, teygir sig yfir heila öld, fer svo víða og segir frá svo mörgum persónum að það virtist óðs manns æði að gera því skil á einu kvöldi. Það var strax léttir að komast að því að leikgerð Ólafs Egils Egilssonar og Símonar Birgissonar lætur fyrra bindið duga. Enda er það heillegt verk sem var frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins í gærkvöldi undir stjórn Hörpu Arnardóttur, verk sem segir samfellda sögu með skýrum þræði (að minnsta kosti fyrir þá sem þekkja bókina) þótt það leiki sér að tímanum til að ná sterkari listrænum áhrifum. Lesa meira

Næsta síða »