Sjálfsblekkingarleikur

16. janúar 2015 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Það var hressandi að horfa á Háaloftskonur á litla sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi. Þær léku þar, sungu og dönsuðu nýtt leikverk eftir Auði Övu Ólafsdóttur, Ekki hætta að anda. Stefán Jónsson leikstýrði þeim og Melkorka Sigríður Magnúsdóttir samdi dansana sem brutu upp framvinduna á afar þokkafullan hátt. Þessi sýning er eins ólík öðrum uppsetningum leikhúsanna í vetur, að innihaldi og stíl, og hugsast getur – enda brakandi ný og fersk. Lesa meira

„Hjálpaðu mér að lifa nóttina af“

11. janúar 2015 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Aðstandendur Hunds í óskilum, fjölhæfu grínistarnir Hjörleifur Hjartarson og Eiríkur G. Stephensen, byrja nýju revíuna sína, Öldina okkar, á því að koma manni rækilega á óvart. Þeir flytja textann hans Kris Kristoffersonar, Help me make it through the night, undir fornu rímnalagi. Fyrir utan að vera morðfyndið atriði geymir textinn auðvitað gott mottó fyrir grín á borð við Öldina okkar: „Gærdagurinn er dauður og horfinn og morgundagurinn ennþá ókominn. Það er ömurlegt að vera aleinn. Hjálpaðu mér til að lifa nóttina af.“ Lesa meira

Tvær konur á Akureyri

10. janúar 2015 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Tjarnarbíó tekur vel á móti Lísu og Lísu frá Akureyri, endurraðar í salnum þannig að áhorfendur sitja allt í kringum þær. Þær eru umkringdar gestum sínum og fer vel á því. Á myndum frá Akureyrarsýningunni má sjá að þessi uppröðun breytir nokkru, hér hafa þær til dæmis enga veggi til að hengja myndaprops á, og svo mundu þær ekki alltaf eftir því að leika hringinn. Hvorugt þessara atriða kemur þó verulega að sök, og verði sýningin eins vinsæl og troðfullur salur í gær benti til þá venjast þær fljótt þessum nýju aðstæðum. Lesa meira

Nóra, Nóra

31. desember 2014 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Dúkkuheimili Hörpu Arnardóttur á stóra sviði Borgarleikhússins er án nokkurs vafa ein skemmtilegasta uppsetning á leikriti Ibsens sem ég hef séð. Ég hef séð róttækari uppsetningu (Thomas Ostermeier á Schaubühne í Berlín sem líka var látin gerast í samtíma okkar) og klassískari uppsetningu (Ingmar Bergman í Konunglega í Köben) en Anne Tismer og Pernilla August voru ekki líkt því eins mikil beib og Unnur Ösp Stefánsdóttir í hlutverki Nóru … og ég er ekki frá því að hún hafi snortið mig dýpra en þær í umkomuleysi sínu undir lokin, í baráttunni við skelfinguna sem heltekur hana þegar hún áttar sig á því að hún veit ekkert hver hún er og þaðan af síður hvar hún stendur. Lesa meira

Kolumkilli var hér

27. desember 2014 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Byrjunin á sýningunni á Sjálfstæðu fólki í Þjóðleikhúsinu er bæði snjöll og áhrifarík. Þó sést í útgefinni leikgerð að handritshöfundar hafa ekki ætlað að láta sýninguna byrja svona. Hugmyndin hefur komið seint til. Ung hjón standa fyrir miðju framsviði, þögul, hlið við hlið, en í stúkunni til hliðar sitja roskin hjón, mun glæsilegar búin en brúðhjónin. Svo stendur frúin upp og heldur hjartnæma ræðu yfir ungu hjónunum, ræðu um heilagar skyldur þeirra við föðurlandið og guð, göfugt hlutverk bóndans og hið fullkomna líf í náttúrunni. Í næsta atriði sjáum við svo kjörin sem hinum ungu hjónum eru búin á kotbýli uppi í heiði, þar sem draugarnir Kólumkilli og Gunnvör hafa ríkt um aldir. Þetta býli nefnir ungi bóndinn Sumarhús í sigurvímu sinni. Hvaða möguleika eiga þau á fullkomnu lífi, jafnvel þó að þeim takist að „eignast“ þessa svonefndu jörð og verða „sjálfstætt fólk“? Lesa meira

„Ég hef þörf fyrir að jagast í raunveruleikanum …“ – Stefnumót við Kristínu Eiríksdóttur

8. desember 2014 · Fært í Eldri greinar úr TMM, Viðtöl, Á líðandi stund ·  

KristinEiriksdottirLitJPV2012

Eftir Hauk Ingvarsson

(Birtist í tmm 2.2011)


1. nóvember 2001 var útkomu bókarinnar Ljóð ungra skálda fagnað í Þjóðmenningarhúsinu. Ritstjóri hennar var Sölvi Björn Sigurðsson en 1954 hafði afi hans, Magnús Ásgeirsson, ritstýrt safni með sama nafni sem markaði tímamót í íslenskri bókmenntasögu. Þar var órímaður skáldskapur regla frekar en undantekning og bókin varð þannig tákn og vitnisburður um þá miklu formbyltingu ljóðsins sem varð hér upp úr stríðslokum. Lesa meira

Sómi að Sóma þjóðar

6. desember 2014 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Það er rífandi skemmtileg leiksýning í Tjarnarbíó núna á vegum Sóma þjóðar, stutt og snöfurleg sýning sem heitir eftir hríðskotabyssunum sem bárust til landsins á dögunum: MP5. Hilmir Jensson og Tryggvi Gunnarsson skrifuðu verkið og leika í því saman auk þess sem þeir leikstýra sér í sameiningu.

Lesa meira

„Það sem drífur mig áfram eru uppgötvanir …“ – Stefnumót við Ófeig Sigurðsson

5. desember 2014 · Fært í Eldri greinar úr TMM, Viðtöl, Á líðandi stund ·  

OfeigurSigurdsson2014JPV_svhv

Eftir Hauk Ingvarsson

Birtist í tmm 1. 2011

Fyrir síðustu jól kom út skáldsaga með löngum en lýsandi titli; Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar og nýrra tíma (Mál og menning 2010). Jón sá sem nefndur er í titlinum er Steingrímsson, söguleg persóna sem uppi var á 18. öld, þekktastur sem eldklerkurinn á Kirkjubæjarklaustri sem stöðvaði hraunflóðið úr Skaftáreldum með messusöng. Sem slíkur er hann ekki síður þjóðsagnapersóna í huga almennings en manneskja af holdi og blóði þó að eftir hann liggi sjálfsævisaga þar sem hann gerir ítarlega grein fyrir sínu veraldlega basli. Í skáldsögunni er Jón líka rækilega jarðbundinn því lesendur kynnast honum í gegnum bréf sem hann skrifar úr Mýrdalnum til konu sinnar í Skagafirði frá haustinu 1755 fram á vorið 1756. Skáldsagan um Jón vakti athygli fyrir þróttmikinn og agaðan stíl og veltu lesendur því fyrir sér hvernig höfundurinn, Ófeigur Sigurðsson, sem fæddur er 1975, hefði náð tökum á íþrótt sinni og úr hvaða jarðvegi hann væri sprottinn. Lesa meira

Ekki mættu allir sem boðið var

24. nóvember 2014 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Leikhópur Mörtu Nordal og Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur, Aldrei óstelandi, frumsýndi í gærkvöldi leikgerð hennar og leikhópsins af verðlaunabók Einars Kárasonar, Ofsa, í Kassa Þjóðleikhússins. Verkið segir frá aðdraganda eins hörmulegasta glæps Sturlungaaldar, Flugumýrarbrennu, og endar á brennunni sjálfri. Þetta er auðvitað kvikmyndaefni og ekki augljóst hvernig má laga það að litlu sviði og fáum leikendum en hópurinn sýnir sem fyrr óvenjulega hugkvæmni í útfærslu hugmynda svo úr verður einstaklega frumleg, skemmtileg og áhrifamikil sýning. Lesa meira

Í pottinn búið

22. nóvember 2014 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Skýjasmiðjan sýnir nú í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu látbragðs- og brúðuleikinn Fiskabúrið sem er ætlaður börnum frá 18 mánaða til sex ára. Ég fór með einn þriggja ára sem fannst alveg æðislega gaman og annan sex ára, vanan leikhúsmann, sem var stilltari í hrifningu sinni en ánægður þó. Svo langt sem það nær bendir það til þess að leikhúsið hafi skilgreint rétt hvaða aldri verkið hæfir. Lesa meira

Næsta síða »